Matvælafyrirtækið Lýsi og fjárfestingafélög tengd aðaleiganda Lýsis eru nú í hlutahafahóp Þórsmerkur, eiganda Ársvakurs, sem er útgáfufélag Morgunblaðsins og tengda miðla. Lýsi og áðurnefnt fjárfestingafélag fara nú með rúmlega 10% hlut í Þórsmörk.

Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að hlutafé Þórsmarkar hafi verið aukið um 300 milljónir króna að nafnvirði í maí. Töluverð breyting varð á hluthöfum félagsins. Lýsi er nú komið með 2,76% hlut og Í fjárfestingar ehf. er komið með 7,72% hlut en félagið er í helmings eigu Katrínar Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Lýsis, og Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar, stjórnarformaður Lýsis.

Þá jókst hlutur útgerðarfélagsins Ramma úr 6,14 prósentum í 6,87 prósent, og hlutur Legalis, félags Sigurbjörns Magnússonar, jókst úr 12,37 prósentum í 13,9 prósent.

Guðbjörg Magnea Matthíasdóttir færir hluta á milli

Guðbjörg Magnea Matthíasdóttir er aðaleigandi Ísfélags Vestmannaeyja. Hlutur félagsins fór úr 13,4% í 8,99%, á móti jókst hlutur Hlyns A, sem er einnig félag Guðbjargar, úr 16,45% í 18,49%.

Guðbjörg á einnig hluta í Kaupfélagi Skagfirðinga en dótturfélag þess, Íslenskar sjávarafurðir, minnkaði hlut sinn í Þórsmörk úr 20% í 19,45%. Félagið er nú stærsti hluthafi Þórsmerkur þar sem hlutur Ramses II fór úr 20,05% í 13,41%.

Hluthafar Þórsmerkur:

  • Íslenskar sjávarafurðir - 19,45%
  • Hlynur A - 18,49%
  • Legalis - 13,41%
  • Ísfélag Vestmannaeyja - 8,99%
  • Í fjárfestingar - 7,72%
  • Rammi - 6,87%
  • Lýsi - 2,76%
  • Þingey - 2,40%
  • Stálskip - 2,06%
  • Brekkuhvarf - 2,05%
  • Fari - 1,03%
  • Hraðfrystihúsið - Gunnvör - 0,87%