Lýsi hf. hefur hlotið forvarnarverðlaunin Varðbergið, en verðlaunin eru árlega veitt viðskiptavini Tryggingamiðstöðvarinnar sem þykir skara fram úr á sviði forvarna gegn óhöppum og slysum, að því er segir í tilkynningu frá TM. Þar segir að TM hafi jafnframt veitt fyrirtækjunum Guðmundi Tyrfingssyni ehf. og Síldarvinnslunni hf. sérstaka viðurkenningu fyrir starf í þágu forvarna.

Í tilkynningunni er haft eftir Katrínu Pétursdóttur, forstjóra Lýsis, að hjá fyrirtækinu sé mikil áhersla lögð á forvarnarstarf og gæði, fyrirbyggjandi viðhald, öflugt öryggiskerfi og ekki síst öflugt brunavarnakerfi. „Að undanförnu höfum við unnið sérstaklega að því að fækka óhöppum sem tengjast bílaflotanum og árangurinn hefur verið ótrúlega góður. Okkur þykir mjög vænt um þessa viðurkenningu frá TM. Hún er okkur mikil hvatning,“ er haft eftir Katrínu.

Þá er haft eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, að stjórnendur og starfsfólk Lýsis séu samhent um að ná árangri í forvarnarstarfi fyrirtækisins. „Þessi árangur er athyglisverður og mikil ánægja ríkir innan TM með samstarf fyrirtækjanna.  Það er því okkur sönn ánægja að afhenda þeim Varðbergið“, er haft eftir Sigurði.

Í tilkynningunni segir ennfremur:

„Sem leiðandi fyrirtæki leggur Lýsi mikla áherslu á gæði og gæðastjórnun við framleiðslu vörunnar, enda er varan heilsuvara ætluð til manneldis.  Lýsi býr að öflugri liðsheild starfsmanna sem leggja grunninn að því að öllum framleiðslu-,hreinlætis- og gæðastöðlum sé fullnægt.  Fyrirtækið fór í gegnum vottunarferli og öðlaðist bæði ISO 9001 og ISO 22000 vottun.  Árið 2005 var ný verksmiðja tekin í notkun, búin fullkomnustu tækjum sem völ er á til framleiðslu lýsis.  Öflug gæðakerfi, sem njóta bæði stuðnings gæðaeftirlits og rannsóknarstofu nýju verksmiðjunnar, leggja grunninn að framleiðslu vara í hæsta gæðaflokki.  Aðalverksmiðja og höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Reykjavík en þess utan starfrækir Lýsi fiskimjölsverksmiðju í Þorlákshöfn.  Undanfarin ár hefur Lýsi verið í hópi fyrirtækja með lága tjónatíðni þrátt fyrir rekstur sem felur í sér áhættusama þætti.

Guðmundur Tyrfingsson og Síldarvinnslan hlutu sérstakar viðurkenningar frá TM.  Guðmundur Tyrfingsson ehf. er rótgróið fjölskyldufyrirtæki þar sem umhverfis-og öryggismál hafa frá upphafi verið fyrirtækinu hugleikin, og er fyrirtækið eitt það fyrsta í atvinnugreininni til að móta umhverfis-og öryggisstefnu sem höfð er að leiðarljósi í rekstri fyrirtækisins.  Markmið fyrirtækisins með öryggisstefnu er að vinna markvisst að því að öryggi verði í hávegum haft og óhöpp eins fá og takmörkuð sem frekast er unnt.  Á hverju ári er haldið öryggis-og umhverfisnámskeið fyrir alla starfsmenn.

Síldarvinnslan er í dag eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.  Einn af þeim starfsþáttum sem Síldarvinnslan leggur áherslu á er að nýráðið starfsfólk fái fræðslu um starfsemi fyrirtækisins og stjórnskipulag.  Síldarvinnslan stefnir einnig að því að allir nýráðnir starfsmenn fái á fyrsta starfsdegi afhenta handbók sem inniheldur starfstengdar upplýsingar.  Handbókin liggur frammi á öllum starfsstöðvum.  Einnig er það stefna fyrirtækisins að allur aðbúnaður í vinnuumhverfinu uppfylli nútímakröfur og sé í samræmi við lög og reglugerðir um öryggi og aðbúnað á vinnustað.“