Katrín Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Lýsis hf., er bjartsýn á framtíðarrekstur fyrirtækisins enda sé eftirspurn eftir framleiðsluvörum þess mun meiri en hægt er að sinna. Um 90% af vörunum sem Lýsi hf. framleiðir fer til útflutnings og skilar því verðmætum gjaldeyri til þjóðarbúsins.

„Framleiðslan gengur vel og við gætum selt helmingi meira. Það hefur minnkað framboð á þorskalýsi frá Noregi og það eykur eftirspurnina hjá okkur. Við höfum þó náð að sinna öllum okkar helstu og traustustu viðskiptavinum en höfum því miður orðið að neita mörgum nýjum um viðskipti. Það vantar einfaldlega meiri lifur."

Katrín segist gera sér vonir um að aukinn þorskkvóti skili meiri lifur á land. Fleiri séu þó um hituna en Lýsi því önnur fyrirtæki hafi verið að taka til sín talsvert magn til niðursuðu. Munurinn sé þó sá að Lýsi geti tekið við allri lifur sem nýtt er í mismunandi framleiðsluafurðir, bæði til manneldis og í gæludýrafóður. Niðursuðufyrirtækin taki hinsvegar eingöngu sérvalda lifur í sína framleiðslu sem krefst vandaðri meðhöndlunar.

„Það ætti því að vera nóg fyrir alla. Það er mikið um að sjómenn hirði lifur og þar hefur orðið gríðarleg breyting til batnaðar frá því sem áður var. Enn má þó gera betur og sumir eiga reyndar í erfiðleikum með aðstöðu til geyma lifrina um borð í bátum sínum. Við hvetjum menn þó til að skoða alla möguleika í því þar sem um mikil verðmæti er að ræða. Þá er sama hvort lifrin er soðin niður í dósir eða endar sem lýsi á flöskum. Manni er annt um að lifrin komi að landi og skapi hér aukin verðmæti. Lifrin gerir lítið fyrir okkur ef hún fer í sjóinn aftur."

- Sjá viðtal við Katrínu í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins