Borist hefur yfirlýsing frá Lýsi vegna umfjöllunar um fiskþurrkun félagsins í Þorlákshöfn.

Yfirlýsing Lýsis hljómar þannig:

„Lýsi harmar það ástand sem skapast hefur um atvinnurekstur fyrirtækisins í Þorlákshöfn þar sem íbúar hafa kvartað yfir lyktarmengun frá fiskþurrkun þess. Lýsi hefur í eitt og hálft ár verið tilbúið með mengunarbúnað til að setja við fiskþurrkunina en ekki fengið leyfi frá bæjaryfirvöldum til að setja hann upp.

Erfitt er að draga aðrar ályktanir af þessari synjun en þær að bæjaryfirvöld vilji viðhalda óánægju íbúa Þorlákshafnar með starfsemi fiskþurrkunarinnar. Lýsi setti  búnað af þessari gerð upp við lifrarbræðslu sem fyrirtækið á í Þorlákshöfn árið 2006. Hefur hann gefið mjög góða raun. Fullyrða má því að búnaðurinn sem Lýsi á tilbúinn muni koma fyllilega til móts við þær kröfur sem bæjarbúar gera.

Í blaðaviðtölum hefur forsvarsmaður undirskriftarsöfnunar gegn fiskþurrkuninni haft uppi gífuryrði um Lýsi sem eru ósönn. Lögfræðingur félagsins kannar nú réttarstöðu þess með málshöfðun í huga.“