Af íslenskum bætiefnaframleiðendum ber Lýsi hf. höfuð og herðar yfir keppinautana, sem kemur ef til vill ekki á óvart miðað við vinsældir fiskiolíunnar meðal Íslendinga. Árið 2010 skilaði fyrirtækið um 710 milljóna króna hagnaði sem er í raun mikið afrek miðað við stærð efnahagsreikningsins, en eignir fyrirtækisins voru í árslok 2010 um fjórir milljarðar króna. Þrátt fyrir þennan mikla hagnað var eigið fé Lýsis þó neikvætt um einar 116 milljónir króna.

Stærst á markaðnum yfir klassíska bætiefnaframleiðendur, þ.e. fyrirtæki sem selur vítamín, kalk og önnur bætiefni undir eigin nafni, er Heilsa. Hagnaður Heilsu nam árið 2010 um 45,6 milljónum króna og eignir fyrirtækisins voru um 214 milljónir. Heilsa er dótturfélag Lyfju, sem ekki hefur skilað ársreikningi fyrir árið 2010 og er undir stjórn kröfuhafa. Með því að skoða ársreikninga Lyfju annars vegar og Heilsu hins vegar fyrir árið 2009 sést að hagnaður Lyfju það árið nam um 114 milljónum króna og Heilsu um 12 milljónum króna. Það rímar við bandarísku tölurnar um að umfang bætiefnamarkaðarins sé um einn tíundi af stærð lyfjamarkaðsins.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlega úttekt á íslenska bætiefnamarkaðinum. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.