Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing og dótturfélag þess, Pera ehf., hafa samið við Deutsche Bank um ádráttarlínu og niðurfærslu skulda til þess að halda eiginfjárhlutfalli Lýsingar yfir lögbundnum mörkum, þrátt fyrir möguleg áföll vegna hæstaréttardóma sem tengjast fullnaðarkvittunum.

Þýski bankinn er stærsti lánveitandi Lýsingar. Niðurfærslan felst í því að hluti af kröfum þýska bankans, allt að 7 milljarðar króna, verður ekki innheimtur nema að því marki að eiginfjárhlutfall Lýsingar verði umfram skilgreind mörk að viðbættum þremur prósentum. Skrifað var undir samninga í desember síðastliðnum.

Frá þessu er greint í ársreikningi Lýsingar fyrir árið 2012. Að mati stjórnenda tryggir samningurinn rekstrarhæfi félagsins ef kemur til tjóns vegna afskrifta umfram varúðarfærslur sem þegar hafa verið gerðar. Í áritun endurskoðenda ársreikningsins er sérstaklega vakin athygli á kafla um óvissu og rekstrarhæfi félagsins, án þess að gerður sé um það fyrirvari.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .