Lýsing tapaði tveimur málum fyrir Hæstarétti í síðustu viku vegna gengistryggðra lána. Í tilkynningu á vefsíðu Lýsingar kemur fram að dómarnir hafi skýrt frekar réttarstöðuna varðandi mikilvæg álitaefni um beitingu fullnaðarkvittunar vegna samninga með ólögmætu gengisviðmiði. Með dómunum hafi Hæstiréttur fallist á vægari skilyrði fyrir beitingu undantekningarreglu kröfuréttar en áður hafi verið gert.

„Lýsing telur að svo komnu máli að sætta megi ýmis ágreiningsmál um endurreikning gengistryggðra samninga á grundvelli laga, samningsskilmála og fenginna fordæma í Hæstarétti,“ segir í tilkynningu frá Lýsingu. Búast megi við að úrlausn fáist um kröfur um nýjan endurreikning að stórum hluta innan tveggja til þriggja mánaða.