Fjármálaeftirlitið (FME) telur að Lýsing hafi ekki brugðist rétt við fyrirspurn viðskiptavinar fyrirtækisins og gerir kröfu um að fyrirtækið endurskoði stefnu sína um meðhöndlun fyrirspurna í framtíðinni.

Í gagnsæistilkynningu sem FME hefur sent frrá sér vegna athugunar á starfsháttum Lýsingar er greint frá því að viðskiptavinur Lýsingar hafi sent fyrirtækinu fyrirspurnir sem lutu m.a. að endurútreikningi erlends láns sem viðkomandi hafði tekið hjá félaginu og geymslureikningi sem félagið hafði stofnað vegna hugsanlegrar ofgreiðslu lánsins. Í svörum Lýsingar hf. kom m.a. fram að félagið teldi fréttatilkynningu sem birt hefði verið á heimasíðu félagsins þann 29. maí sl. fela í sér næg svör við þeim fyrirspurnum sem um ræddi og að því hefði ekki verið talin þörf á sérstökum skýringum. Jafnframt hefðu sumar fyrirspurnirnar verið þess eðlis að ekki væru til einhlít svör við þeim.

Lýsing átti að svara

FME féllst ekki á þetta sjónarmið Lýsingar hf. og taldi að efnisleg svör við fyrirspurnum, að teknu eðlilegu tilliti til trúnaðar og hagsmuna fjármálafyrirtækja af leynd yfir tilteknum þáttum starfseminnar, væri nauðsynlegt skilyrði eðlilegra samskipta milli viðskiptavina og fjármálafyrirtækja og þess trausts sem fjármálafyrirtæki verða að njóta. FME taldi að unnt hefði verið að svara fyrirspurnunum efnislega og án þess að fyrirtækinu yrði bakað tjón. Þá taldi FME að viðskipti gætu ekki þrifist með góðu móti ef neitun þess aðila viðskiptasambands sem hefur yfirburði í krafti stærðar og sérþekkingar á viðfangsefninu.

FME taldi því að Lýsing hefði átt að miðla umbeðnum upplýsingum til viðskiptavina.

FME bendir reyndar á, að 28. ágúst síðastliðinn hafi á meðan athuguninni stóð Lýsing birt nýja fréttatilkynningu á heimasíðu sinni sem fól í sér nánari skýringar en finna mátti í fréttatilkynningu félagsins frá 29. maí sama ár.

Tilkynning FME