Lýsing fjármagnar kaup Sýr ehf. á húseignum Teymis hf. Heildarverðmæti samningsins um 2.3 milljarðar króna. Teymi leigir fasteignirnar aftur af Sýr. Mikið rekstrarlegt hagræði af því að selja húsnæði og leigja aftur segir í frétt Lýsingar.

Lýsing hf. og Sýr ehf. hafa undirritað samning um fjármögnun á kaupum Sýr á eignum Teymis hf, en Sýr ehf. er í eigu þeirra Gunnars Hjaltalín og Þórarins Ragnarssonar. Atvinnuhúsnæðið sem um ræðir er Teymi hf. að selja en um leið að leigja til sín til 10 ára.

Fasteignirnar sem um ræðir eru Ármúli 2, sem hýsir starfsemi Skýrr hf., Síðumúli 23 og 25, þar sem starfsemi Securitas fer fram, Grensásvegur 8 og 10, þar sem EJS hefur verið til margra ára, og Lyngháls 9, sem er húsnæði Kögunar. Að auki var undirritaður samningur um fjármögnun á Köllunarklettsvegi 2, sem er í langtímaleigu til ýmissa aðila.

Sýr ehf. var eitt af fimm fasteignafélögum sem fengu að gera tilboð í lokuðu forvali á kaupverði og svo leiguverði til Teymis. Sýr reyndist bjóða best. Í framhaldinu óskuðu forsvarsmenn Sýr eftir tilboði frá fjármögnunarfyrirtækjum vegna tilboðsins og hreppti Lýsing hnossið.

Samkvæmt þeim Gunnari og Þórarni var samið við Lýsingu í ljósi samkeppnishæfra kjara, faglegra vinnubragða og góðrar reynslu þeirra af fyrri viðskiptum við Lýsingu. Heildarkaupverð þessara fimm fasteigna er um 2.3 milljarðar króna.

Að sögn Barkar Grímssonar, ráðgjafa á fyrirtækjasviði Lýsingar, fylgir því mikið rekstrarlegt hagræði að selja fasteignir og leigja þær aftur.

?Með þessu móti eru fjármunir sem bundnir eru í fasteignum losaðir og hægt að veita þeim inn í reksturinn. Þannig geta fyrirtæki notað aukið fjármagn til þess að stækka enn frekar og sinna sínum viðskiptum af enn meiri krafti, á meðan fagmenn sjá um oft tímafrekan rekstur fasteigna,? segir Börkur í fréttinni.