Hagnaður Lýsingar var 715 milljónir í fyrra, borið saman við 447 milljónir árið 2012 og jókst því um 268 milljónir á milli ára. Munar þar langmestu um gjaldeyrismun, en félagið hagnaðist um 1.120 milljónir vegna þessa árið 2013 en tapaði hins vegar 675 milljónum árið 2012.

Vaxtatekjur Lýsingar, sem er stærsti tekjustofninn, drógust talsvert saman á milli ára og fóru úr 2.491 milljón 2012 niður í 1.787 milljónir árið 2013. Aftur á móti lækkuðu vaxtagjöld úr 399 milljónum í 169 milljónir á sama tíma. Eignir lækka úr 35.484 milljónum í 27.335 milljónir en skuldir lækka að sama skapi úr 26.460 milljónum í 17.616 milljónir á milli 2012 og 2013.

Handbært fé jókst úr 7.946 milljónum og var 10.463 milljónir í árslok 2013. Handbært fé félagsins er þó mun minna en í árslok 2011, þegar það var 38.019 milljónir, en það var nýtt til að greiða niður lán árið 2012.