Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing, sem er í eigu VÍS, hefur ráðið bankana BayernLB og Raiffeisen Zentralbank Österreich (RZB) til að sækja 65 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega sex milljörðum króna, á sambankalánamarkað í Evrópu, segir í tilkynningu frá umsjónaraðilunum.

Lánið verður notað til að styðja við rekstur Lýsingar, segir í tilkynningunni, og vaxtakjörin eru 49 punktar yfir EURIBOR-vexti, sem eru millibankavextir í Evrópu.

Lán Lýsingar er til þriggja ára, en til samanburðar eru vaxtakjör Kaupþings banka 17,5 punktar yfir EURIBOR fyrir þriggja ára lánið sem bankinn sótti á sambankalánamarkað fyrr á þessu ári. Kaupþing hefur losað stöðu sína í Lýsingu til VÍS.