Hæstiréttur dæmdi í gær fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu til að endurgreiða lántakanda fyrirtækisins tæpar 700 þúsund krónur sem lántakandinn hafði ofgreitt vegna bílasamnings.

Þetta er annar dómurinn í sambærilegu máli sem fellur Lýsingu í óhag. Í stuttu máli snýst málið um það að Lýsing ákvað einhliða að verðtryggja íslenskan hluta af myntkörfuláni (sem var að hluta til í íslenskum krónum) eftir að lánið hafði verið umreiknað í kjölfar þess að Hæstiréttur hafði dæmt myntkörfulán ólögmæt.

Í hvorugu þeirra tilvika sem um ræðir er nokkuð sem kemur fram um að íslenski hluti lánsins sé verðtryggður og dómur Hæstaréttar í gær staðfestir að svo sé ekki. Lýsingu var því eðli málsins samkvæmt ekki heimilt að verðtryggja endurgreiðslur af láninu líkt og fyrirtækið gerði.

Lýsingu var gert að greiða fyrrum viðskiptavini sínum fyrrnefnda upphæð sem hann hafði ofgreitt af láninu auk 2,5 milljóna króna málskostnaðar.

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um sambærilegt mál þar sem Lýsing lagði verðtryggingu á íslenskan hluta myntkörfuláns sem hafði verið endurreiknað eftir ógildingu Hæstaréttar.

HÉR má finna fréttaskýringu á vef Viðskiptablaðsins eftir að dómur hafði fallið í því máli.