Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing, sem er í eigu tryggingarfélagsins VÍS, hefur tryggt sér 67,5 milljón evra sambankalán, sem samsvarar rúmlega sex milljörðum króna, segir í fréttatilkynningu frá umsjónaraðilunum.

Þýski bankinn BayernLB, austurríski bankinn Raiffeisen-Zentralbank Österreich (RZB) og þýski bankinn Landesbank Rheinland-Pfalz (LRP) höfðu umsjón með sölu sambankalánsins til annarra banka á sambankalánamarkaði í Evrópu.

Vaxtakjörin eru 49 punktar yfir EURIBOR-vexti, sem eru millibankavextir í Evrópu, og er til þriggja ára. Umsjónaraðilarnir segja að lánið verði nýtt til að styðja við framtíðarrekstur Lýsingar.

Kaupþing banki hefur losað stöðu sína í Lýsingu til VÍS, sem nú er dóttufélag að fullu í eigu tryggingafélagsins. Bankinn seldi einnig eignarhlut sinn í VÍS til fjárfestingarfélagsins Exista, sem áætlað er að skrá á hlutabréfamarkað í september.