Lýsing hf. varð ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna hlutafjáraukningar Exista árið 2008, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Eins og fram hefur komið í fréttum var hlutafé Exista aukið um 50 milljarða að nafnvirði, en lagður var fram einn milljarður fyrir hlutina. Málarekstur stendur nú yfir vegna málsins, en Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Exista, hefur verið ákærður fyrir stórfelld brot á hlutafélagalögum.

Í tilkynningunni segir: „Að marggefnu tilefni áréttar Lýsing hf. það sem fram kemur í ákæru sérstaks saksóknara vegna greiðslu hlutafjár í Exista árið 2008, að lán frá félaginu að fjárhæð 1 milljarður króna „var greitt inn á vörslureikning hjá lögfræðistofunni Logos þar sem innstæðan lá óhreyfð fram á sumarið 2009“. Svo segir: „Þessi milljarður króna rann því aldrei inn í rekstur Exista.“ Lýsing á enga aðild að umræddu dómsmáli og varð ekki fyrir neinu fjárhagslegu tjóni vegna umræddrar lánsbeiðni.“