Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing, sem einkum sá um fjármögnun samninga um kaup á bílum og atvinnutækjum á árunum  fyrir hrun, hefur lokið við samninga um endurfjármögnun fyrirtækisins. Samningarnir fela meðal annars í sér að Lýsing veðsetur fjárkröfur samkvæmt lánasamningum til viðskiptavina til Straums fjárfestingabanka hf.

Þrátt fyrir veðsetningu á kröfunum mun viðskiptasamband Lýsingar og viðskiptavina félagsins ekki breytast, segir í tilkynningu sem Lýsing sendi viðskiptavinum sínum fyrir helgi. Fullyrðir Lýsing jafnframt í bréfinu að endurfjármögnun félagsins hafi engin áhrif á viðskiptavini þess.

Þá kemur fram að daglegur rekstur félagsins taki ekki breytingum vegna endurfjármögnunarinnar. Þá segir að fyrri tilkynningar Lýsingar um varúðarráðstafanir í þágu viðskiptavina, þess efnis að innistæðum í varasjóðum verði ekki ráðstafað nema ætlaðri réttaróvissu hafi verið eytt, halda gildi sínu. Sama eigi við um samkomulag við lánadrottna Lýsingar um að varasjóðirnir standi fyrst straum af endurgreiðslum til viðskiptavina vegna mögulegrar ofgreiðslu áður en þeim verði ráðstafað til greiðslu á öðrum skuldbindingum.