Bæring Ólafsson hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann segir ákvörðun sína um að draga framboð sitt til forseta til baka óbreytta.

„Ég óska hér með öllum frambjóðendum góðs gengis og heilla í komandi forsetakosningum. Ég vil þó benda á að það eru fleiri kostir en þeir tveir sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur vakið athygli á,“ segir Bæring í tilkynningu sinni. Hann segist telja að valið standi milli gamla og nýja tímans og segir Andra Snæ Magnason mjög góðan talsmann fyrir nýja tíma.

„Andri er skarpgáfaður, mikill atorkumaður, strangheiðarlegur, ákveðinn, traustur og hugrakkur. Ég skora á fólk að kynna sér forsetaframboð Andra Snæs og lýsi hér með yfir stuðningi mínum við hann sem forseta Íslands árið 2016.“