Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, sem áður hét Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, en nú Virðing Réttlæti, lýsir yfir vantrausti á Guðrúnu Hafsteinsdóttur formann Landsamtaka lífeyrissjóða og varaformann stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til að gegna stöðunum.

Segist hann fagna velheppnuðu hlutafjárútboði Icelandair og að hann hafi treyst stjórnarmönnum VR í lífeyrissjóði verzlunarmanna hvor ákvörðunin sem hefði verið tekin, þó stjórn VR hafi lýst yfir andstöðu við þátttöku sjóðsins í hlutafjárútboðinu eftir að „stjórnendur Icelandair tóku þá ákvörðun að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur, og gera þannig aðför að samningsrétti allra stéttarfélaga“ eins og Ragnar lýsir uppsögnum í kjölfar þess að samningar náðust ekki við flugfreyjur.

„Ég vil hinsvega koma eftirfarandi á framfæri vegna ummæla og ásakana í minn garð, stjórnar VR og stjórnarmanna okkar hjá LIVE eftir þá ákvörðun lífeyrissjóðsins okkar að taka ekki þátt í nýafstöðnu og vel heppnuðu hlutafjárútboði Icelandair.“

Sakar Guðrúnu um ásakanir, dylgjur og ofsafengin viðbrögð

Segir Ragnar Þór það með miklum ólíkindum hvernig Guðrún hafi stigið fram með ásakanir og dylgjur vegna ákvörðunar lífeyrissjóðsins að taka ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair. Sagt var frá því í fréttum á dögunum að Guðrún hefði furðað sig á afstöðu fulltrúa launþega í stjórn sjóðsins um að hafna þátttöku, meðan fulltrúar atvinnulífsins hafi verið samstíga í þátttöku.

Sem dæmi um eins og Ragnar Þór kallar þau „ofsafengnu viðbrögð sem við höfum fengið frá valdablokk atvinnulífsins,“ tekur hann stutt ummæli eftir Guðrúnu á Vísi frá 18. september (ath gæsalappir vantar hjá Ragnari Þór) fram á facebooksíðu sinni:

Þess vegna studdi ég að við færum þar inn og ég harma þessa niðurstöðu.“ Sjóðurinn hefði þurft að kaupa fyrir 2,4 milljarða til að halda sínum hlut eftir fjörtíu ára stuðning við félagið.

„Eignir Lífeyrissjóðs verslunarmanna núna eru í kringum 950 milljarðar. Þannig að þetta hefði þá verið 0,2 prósent af eignasafni sjóðsins sem við hefðum þá lagt til í þessu útboði,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir.

Þessi svokölluðu ofsafengnu viðbrögð segir Ragnar Þór vera „svo lýsandi og afhjúpandi um það ástand og vinnubrögð sem þrifist hafa áratugum saman innan lífeyrissjóðakerfisins þar sem atvinnulífið hefur gengið um á skítugum skónum og fara nú á taugum yfir því að loksins, já loksins sé armur verkalýðshreyfingarinnar að skipa inn nægilega hæfa einstaklinga til að meta hverja fjárfestingu út frá faglegum forsendum en ekki frændhygli, pólitík,sérhagsmuna eða tilfinninga.“

Í færslu sinni segir Ragnar Þór Guðrúnu gera það tortryggilegt hvar stjórnarmenn VR starfa eða sitja í stjórn stéttarfélags, en hún sé sjálf eigandi Kjörís og hafi gengt trúnaðarstörfum fyrir Samtök iðnaðarins um árabil.

„Guðrún Hafsteinsdóttir ræðst með ótrúlega svívirðilegum hætti að minni persónu og fulltrúm okkar í stjórn LIVE, starfsheiðri þeirra og trúverðugleika,“ segir Ragnar Þór.

„Í ljósi stöðu sinnar og fyrri yfirlýsinga hlýtur fjármálaeftirlitið að komast að þeirri niðurstöðu að Guðrún Hafsteinsdóttir sé vanhæf til að sitja í stjórn lífeyrissjóðs með því að réttlæta fjárfestingu í Icelandair vegna þess hversu lítið hlutfall hún er af heildareignum.

Og með því að lýsa því yfir að lífeyrissjóðurinn hafa stutt við félagið í 40 ár og gefa þannig í skyn að fagleg sjónarmið ríki ekki heldur „stuðningur“ við mikilvægt fyrirtæki í atvinnulífinu.

Einnig hefur Guðrún lýst þeirri skoðun sinni sinni að vegna „sögulegra“ sjónarmiða um ávöxtun sé rétt að taka þátt og það sé mikilvægt að fjárfesta í Icelandair til að verja störf.

Guðrún hefur áður lýst því yfir að það sé lögboðin skylda stjórnarmanna að hámarka arðsemi fjárfestinga eingöngu.

Ekkert að ofansögðu stenst nokkra skoðun, samþykktir sjóðsins, fjárfestingarstefnu hans eða lög sem gilda um fjárfestingar lífeyrissjóða.

Þess vegna skora ég á fjármálaeftirlitið að taka ummæli Guðrúnar Hafsteinsdóttur til skoðunar og meta hana óhæfa til að taka ákvarðanir um fjárfestingar fyrir hönd sjóðfélaga LIVE.“

Loks setur Ragnar Þór fram fjölda spurninga eins og hvort Fjármálaeftirlitið ætti að skoða ákvarðanir annarra lífeyrissjóða sem ekki hafi tekið þátt í útboðinu, sem og hvort skoða ætti ákvarðanir þeirra sem vildu taka þátt og sjóðanna sem það gerðu.

Einnig hvort skoða ætti íhlutun hennar sjálfrar í samkomulagi við Seðlabankann um að vera „settir í gjaldeyrishöft á meðan aðrir fjárfestar komust út?“ Jafnframt hvort það sé merki um of mikla áhættu eða annarleg sjónarmið að baki fjárfestingarinnar að aðeins 2 af 5 stærstu hluthöfum Icelandair hafi tekið þátt í útboðinu, auk fleiri spurninga.

Sakar eiganda Fréttablaðsins um að fara í herferð gegn sér

Loks segist hann hafa fengið ábendingu um að Fréttablaðið hyggðist fara í herferð gegn honum að undirlagi aðaleigandans, Helga Magnússonar, sem eigi sér langa og litríka sögu innan lífeyrissjóðakerfisins „þangað til bakland sjóðsins fékk nóg og bolaði honum út“ að því er Ragnar segir á facebook síðu sinni.

„Það varð raunin enda Fréttablaðið nú uppfullt af dylgjum í minn garð og þeirra sem sitja fyrir okkar hönd í stjórn LIVE,“ heldur Ragnar Þór áfram. Hann segir málið undirstrika mikilvægi þess að aftengja atvinnulífið frá stjórnum lífeyrissjóða, svo ákvarðanavald fjárfestinga og skipun í stjórnir verði alfarið í höndum sjóðfélaganna sjálfra.

Hann talar þó ekki um að launþegasamtök eigi að hætta að skipa í stjórnir en heillöngum pistli sínum lýkur hann loks með áskorun um að koma Samtökum atvinnulífsins úr stjórnum lífeyrissjóðanna:

„Atvinnulífið og aðrir talsmenn sérhagsmuna sem hafa litið á eftirlaunasjóði almennings sem fé án hirðis ganga nú vasklega fram í að krefja eftirlitsaðila og löggjafann um að taka til skoðunar "skoðanir" þeirra sem voru á móti því að fjárfesta í einum áhættumesta atvinnurekstri sem um getur.

Á meðan skoðanir þeirra sem vildu taka þátt eru góðar og gildar og þarfnast ekki frekari skoðunar af hálfu eftirlitsaðila.

Þessi ofsafengnu viðbrögð og afhjúpum þeirra sem valdið hafa, staðfesta að við erum á hárréttri leið.
Leið sem vonandi færir valdið til síns heima. Til þeirra sem eiga þessa peninga en hafa minnst um það að segja hvernig þeim er ráðstafað.

Vinsamlega deildu ef þú vilt Samtök atvinnulífsins úr stjórnum lífeyrissjóðanna.“