Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins lýsir eftir upplýsingum frá útflytjendum um hagsmuni í viðskiptum við 20 ríki sem sækjast eftir aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Upplýsingarnar verða notaðar til að ná fram hagstæðari viðskiptakjörum við þessi ríki og greiða fyrir útrás íslenskra fyrirtækja.

Grétar Már Sigurðsson skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu leggur áherslu á að ekki nægi að skoða útflutningstölur í fortíðinni þegar hagsmunir eru metnir. ?Oft á tíðum eru tollar hjá ríkjum sem ekki hafa gengið í WTO mjög háir og raunveruleg hindrun fyrir viðskiptum. Einnig kunna að vera ýmiskonar viðskiptahindranir sem koma í veg fyrir eðlilegan útflutning. Þess vegna er mikilvægt að fyrirtæki komi með ábendingar um vörur og þjónustu þær sem tækifæri kunna að skapast ef tollar eru lækkaðir eða öðrum viðskiptahindrunum er rutt úr vegi,? segir Grétar í viðtali við Stiklur, vefrit utanríkisráðuneytisins.

Tækifæri í aðildarviðræðum

26 ríki eiga nú í viðræðum um aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Þegar ríki sækja um aðild að WTO gefst þeim aðildarríkjum sem fyrir er kostur á að leggja fram kröfur um bættan aðgang fyrir vörur og þjónustu að mörkuðum umsóknarríkjanna. Tollalækkanir og annað, sem næst fram í slíkum viðræðum, gilda fyrir öll ríki innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á grundvelli svokallaðrar "bestukjarareglu". Ástæða þess að einstaka ríki fara í beinar viðræður um bættan aðgang að mörkuðum umsóknarríkjanna er sú að þannig tryggja þau að þær vörur og sú þjónusta sem þau flytja út njóti góðs af aðildinni að WTO.

Aðildarviðræður eru mislangt komnar. Tuttugu og þrjú ríkjanna hafa lagt fram upplýsingar um utanríkisviðskiptastefnu, 19 vinnuhópar hafa haldið
sinn fyrsta fund, 16 umsóknarríki hafa lagt fram tilboð í vörur og þjónustu og efni í skýrslur hefur verið útbúið fyrir 8 umsóknarríki.