Ný verslun Lystadún Marco opnuð í verslunar- og þjónustumiðstöðinni Níunni á Egilsstöðum. Sérstök áhersla lögð á sölu á húsgögnum, rúmum og gardínum ásamt vandaðri þjónustu og ráðgjöf. Lystadún Marco starfrækir verslanir í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum.

Í verslun Lystadún Marco á Egilsstöðum verður lögð áhersla á húsgögn fyrir heimili og fyrirtæki, rúm og gardínur. Að baki versluninni stendur öflugt og reynslumikið verslunar- og þjónustufyrirtæki sem varð til við sameiningu fyrirtækjanna Lystadún Snæland, Marco og Vogue. Fyrirtækið sérhæfir sig í sölu á húsgögnum ásamt framleiðslu og sölu á rúmdýnum og svamphúsgögnum auk framleiðslu, þjónustu og sölu á gardínum.

Verslun Lystadún Marco á Egilsstöðum er sú þriðja í röðinni, en fyrir eru verslanir í Reykjavík og á Akureyri. Verslunin veitir þjónustu um allt Austurland og allir viðskiptavinir hennar á Austurlandi greiða sama verð, óháð vegalengdum. Erla Jónsdóttir er verslunarstjóri Lystadún Marco á Egilsstöðum, en hún átti og rak verslunina Hjá Erlu sem seldi húsgögn og tengdar vörur um fimm ára skeið.

Í verslun Lystadún Marco á Egilsstöðum verður fjölbreytt úrval húsgagna. Verslunin selur eigin framleiðslu Lystadún Marco, svamphúsgögn framleidd að óskum neytanda, jafnt fyrirtækja og heimila. Þar verða einnig húsgögn frá Línunni, skrifstofuhúsgögn frá Á. Guðmundssyni og íslensk húsgögn frá G.Á. húsgögnum. Starfsfólk Lystadún Marco leggur sig fram við að leysa allar séróskir viðskiptavina varðandi húsgögn og útvegar húsgögn frá öðrum fyrirtækjum sé þess óskað.

Vogue hefur um langt árabil framleitt og selt gardínur í fjölbreyttu úrvali og veitt sérhæfða þjónustu þar að lútandi. Starfsfólk Lystadún Marco á Egilsstöðum mun veita þessa þjónustu á Austurlandi, koma á staðinn, mæla fyrir gardínum og annast uppsetningu sé þess óskað. Þá gildir einu hvort um er að ræða tau-, rúllu- eða rimlagardínur sem framleiddar eru samkvæmt óskum viðskiptavinanna. Vinsælast í dag, hvað þetta varðar, eru ýmsar tegundir af gardínum til að verjast útibirtu og sterku sólarljósi.