*

sunnudagur, 29. mars 2020
Innlent 9. ágúst 2019 14:20

Kröfur í þrotabú WOW 138 milljarðar

Alls lýstu tæplega 6000 einstaklingar og lögaðilar kröfum í þrotabú Wow air.

Jóhann Óli Eiðsson
epa

Lýstar kröfur í þrotabú Wow air hf. voru rétt rúmlega 138 milljarðar króna. 5.964 einstaklingar og lögaðilar lýstu kröfu í þrotabúið. Þetta kemur fram í kröfulýsingarskrá búsins sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Sjá einnig: Stærstu kröfuhafar Wow air

Í skránni kemur fram að almennar kröfur, skv. 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nema 125 milljörðum. Kröfur samkvæmt 112. gr. laganna nema fimm milljörðum en þar af hafa 223 milljóna kröfur verið samþykktar. 112. gr. laganna tekur til launa og lífeyrisiðgjalda. Í ljósi fjárhæðar forgangskrafna í búið hafa skiptastjórar, þeir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson, ákveðið að taka ekki afstöðu til almennra krafna að svo stöddu.

Sjá einnig: Skúli með 3,8 milljarða kröfu

Forgangskröfur samkvæmt 109. gr. og 110. gr. nema 5,8 milljörðum og kröfur á grundvelli 111. gr. alls 2,4 milljörðum. Stærsta krafan er frá CIT Aerospace International eða alls rúmlega 52,8 milljarðar króna.

Stikkorð: WOW