Lystigarðurinn á Akureyri hefur ekki farið varhluta af auknum ferðamannastraumi til bæjarins.

Skemmtiferðaskip fram í miðjan október

„Tímabilið er að lengjast, það eru skip hérna fram í miðjan október og hingað koma bara allir á skipunum. Það er boðið upp á ferðir hjá rútufyrirtækjunum upp í garð, og svo bara eitthvað annað. Eins og til dæmis í gær var lokuð Akureyrarkirkja, og þá komu bara allir hingað,“ segir Guðrún Björgvinsdóttir staðgengill yfirmanns í garðinum, en hún segir þetta mest vera erlenda ferðamenn.

„Eiginlega allt of mikið, það er búið að vera alveg troðfullt hérna bara. Það er meira en í fyrra. Því miður erum við ekki með neinar mælingar, en planið er að setja hérna upp skanna og telja, kannski bara á næstunni, eða bara næsta vor.“

Lystigarðurinn fær engar aukatekjur

Guðrún segir lystigarðinn ekki fá auknar tekjur vegna ferðamannastraumsins né heldur sé verið að bjóða upp á skipulagðar vettvangsferðir fyrir ferðamennina.

„Við getum því miður ekki boðið upp á neitt svoleiðis,“ segir Guðrún. „Við reyndar settum upp kassa fyrir frjáls framlög, og svo settum við lítinn miða hérna við klósettin að klósettferð kostaði 100 krónur, það hefur dálítið komið inn, en ekkert miðað við fjöldann.“

Vilja sjá íslensku plönturnar

Aðspurð segir hún ferðamennina sækja mest í að sjá íslensku plönturnar. „Já þeir fara mest í íslensku beðin, en þau eru í stænhæð hérna austan megin í garðinum,“ segir Guðrún.

„Svo er valmúaplanta, eða Blásól heitir hún, sem grípur alla útlendinga, enda rosalega falleg.“

Kaffihúsið í garðinum gengur vel

Í lystigarðinum hefur Bláa kannan rekið kaffihúsið Cafe Laut nú í þrjú sumur, en staðurinn hefur löngum verið í hjarta bæjarins við göngugötuna.

„Það er bara búið að ganga mjög vel í sumar hjá okkur. Betur en í fyrra, því það er meira af erlendum ferðamönnum. Bæði úr skipunum en einnig á eigin vegum,“ segir Stella Gestsdóttir í Bláu könnunni.

„Þeir sem eru að skoða garðinn, droppa inn hjá okkur þar uppfrá. Hér niðurfrá kemur inn fólk sem er að ganga um bæinn og er á göngugötunni, flestir þekkja auðvitað Bláu könnuna.“

Gekk vel strax fyrsta sumarið

Stella segir ferðamannatímabilið hafa lengst alveg töluvert, bæði fram á haustið og það byrji fyrr á vorin. „Þetta byrjaði í byrjun maí, svo er veturinn að koma inn, norðurljósaferðirnar eru líka að skila inn ferðamönnum. Við erum ekki með opið upp í garði yfir veturinn, en við opnum þar í lok maí og svo lokum við 18. september,“ segir Stella

Stella segir að viðskipti í kaffihúsinu í garðinum hafa farið vaxandi öll árin, en þar hafi gengið vel strax frá upphafi.