Rúmlega 51 milljarðs króna kröfum var lýst í þrotabú eignarhaldsfélagsins IceCapital, sem áður hét Sund, að því er DV hefur eftir skiptastjóra félagsins í umfjöllun um málið í dag. Kröfulýsingarfresti í búið lauk fyrr á þessu ári.

Ómar Örn Bjarnþórsson, skiptastjóri búsins, segir að einhverjum af kröfunum hafi þegar verið hafnað og ekki liggi fyrir hversu stór hluti krafna verði samþykktur. Enn fremur er ekki ljóst hver eignastaða félagsins er. Þá er bókhald félagsins til rannsóknar hjá endurskoðendafyrirtækinu Deloitte.

Félagið var í eigu Gunnþórunnar Jónsdóttur, eftirlifandi eiginkonu Óla Kr. Sigurðssonar í Olís, sonar hennar, Jóns Kristjánssonar og dóttur hennar, Gabríelu Kristjánsdóttur. Skuldir við bankahrunið námu um 64 milljörðum króna samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.