Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Skipta, móðurfélags Símans, segir það skjóta skökku við að í rekstri fjarskiptaneta búi félagið enn við samkeppni frá opinberum aðila, þ.e. frá Gagnaveitu Reykjavíkur, sem áður hét Lína Net.

„Ef það er skoðun meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur að Orkuveitan eigi að starfa á samkeppnismarkaði þá verður sú samkeppni að vera í samræmi við lög og leikreglur og fara fram fyrir opnum tjöldum,” sagði Lýður í ræðu sinni á yfirstandandi aðalfundi Skipta.

„Í tilviki Gagnaveitunnar þýðir þetta að fara að úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar frá árinu 2006 og ákvæðum fjarskiptalaga, þar sem fram kemur að Orkuveita Reykjavíkur megi ekki niðurgreiða starfsemi Gagnaveitunnar með tekjum af einokunarsölu á rafmagni og heitu og köldu vatni til almennings. Gagnaveitan á að keppa á nákvæmlega sömu forsendum og aðrir á markaðnum og leggja fram sömu gögn, þar með talið ársuppgjör.”

Hvernig rekstur vilja stjórnmálamenn stunda?

Hvatti Lýður forsvarsmenn Gagnaveitunnar til að starfa með þessum hætti en tók fram að gagnrýni hans á Gagnaveitu Reykjavíkur væri af viðskiptalegum forsendum runnin en ekki pólitískum.

„Þegar þessar upplýsingar um rekstur félagsins liggja fyrir eiga stjórnmálamenn auðveldara með að taka upplýstar ákvarðanir um það hvernig rekstur þeir vilja stunda hjá opinberum fyrirtækjum,” segir hann.