Lýður Guðmundsson, starfandi stjórnarformaður Exista, segir að  hugleiðingar greiningarmanns sænska bankans SEB Enskilda séu illa unnar og fjarri öllum veruleika. „Greiningarmaðurinn þekkir greinilega ekki vel til Exista og gerir sig þar að auki sekan um rangfærslur í útreikningum. Við sendum nýlega frá okkur tilkynningu um trausta lausafjárstöðu Exista og í næstu viku verður birt uppgjör fyrir árið 2007. Við munum þá gera nákvæma grein fyrir stöðu félagsins,“ segir Lýður Guðmundsson.

Í Morgunblaðinu í dag er vitnað í umfjöllun Enskilda, sem birtist undir yfirskriftinni „News Comment“. Fyrirsögn blaðsins á forsíðu er „SEB Enskilda segir Exista nú berjast fyrir lífi sínu“. Þar segir að eigið fé Exista sé aðeins 365 milljónir evra.