Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, var í dag kjörinn í stjórn finnska fyrirtækisins Sampo Group. Sampo er stærsta fyrirtæki sem Íslendingur hefur fengið stjórnarsetu í, en árlegar iðgjaldatekjur félagsins nema um 4,5 milljörðum evra, eða 529 milljörðum króna. Markaðsvirði fyrirtækisins er um 10,6 milljarðar evra (1.250 milljarðar króna).

Sampo á og rekur meðal annars norræna tryggingafélagið If, sem er hið stærsta á Norðurlöndum, með um 3,6 milljónir viðskiptavina. Sampo er stærsti eigandi Nordea bankans að sænska ríkinu undanskildu, en Nordea er stærsti banki á Norðurlöndum.

Á aðalfundinum var samþykkt að greiða hluthöfum arð sem nemur um 694 milljónum evra (82,3 milljörðum króna) fyrir árið 2007. Arðgreiðsla til Exista, sem er stærsti eigandi Sampo með um 20% hlut, nemur því 139 milljónum evra (16,5 milljörðum króna). Þetta mun vera hæsta einstaka arðgreiðsla sem greidd hefur verið íslenskum aðila til þessa.

Lýður Guðmundsson er starfandi stjórnarformaður Exista. Auk stjórnarsetu í Sampo Group er Lýður varaformaður stjórnar Kaupþings banka. Hann hefur jafnframt verið tilnefndur til setu í fulltrúaráði norska líftryggingafélagsins Storebrand sem kjörið verður á aðalfundi 23. apríl næstkomandi.  Þá er Lýður stjórnarformaður Bakkavör Group og Skipta.