Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu, gagnrýndi stjórnvöld, fjölmiðla og nafnleysingja í bloggheimum harðlega í ræðu sem hann flutti á aðalfundi félagsins í morgun.

Hann átaldi sérstaklega frétt Sjónvarpsins frá því á mánudagskvöld sem fjallaði meðal annars um að stjórnendur félagsins hefðu krafist eins milljarðs króna í rekstrarkostnað á ári.

Hann sagði að sú frétt hefði verið slúðurblaðamennska með rangfærslum og dylgjum í annarri hverri setningu. Öllum þeim sem væru í skilanefndum bankanna væri fullkunnugt um að áætlaður rekstrarkostnaður væri aðeins brot af því sem „fréttamaður ríkissjónvarpsins kaus að slúðra um í frétt sinni," sagði hann.

Orðbragð sem aldrei ætti að sjást

Lýður sagði, er hann vék að stjórnvöldum, að kjarkur þeirra til að taka af skarið og standa vörð um stoðir réttarkerfisins væri því miður af skornum skammti og þá sagði hann, er hann vék að bloggheimum, að sóðakjaftur þeirra sem þar skýldu sér undir dulnefnum ætti sinn þátt í því andrúmslofti sem daglega væri kynt undir „og því miður leika nokkrir oddvitar umræðunnar í netheimum þar talsvert hlutverk líka," sagði hann.

„Ég virði tjáningarfrelsið í landinu en ég fyrirlít margt það sem nafnlausir hugleysingar senda daglega frá sér með bloggi sínu og orðbragði sem aldrei ætti að sjást eða heyrast," sagði hann.