Lýður sest í stjórn Sampo

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, er einn tveggja nýrra einstaklinga sem tilnefndir eru í stjórn finnska tryggingafélagsins Sampo, en kosið verður í stjórn á aðalfundi félagsins 15. apríl næst komandi. Exista er stærsti hluthafinn í Sampo, með um 20%, en þar á eftir kemur finnska ríkið með 13,7% og finnski lífeyrissjóðurinn Varma með 8,5%

Alls eru níu tilnefningar til stjórnarmanna frá þeirri nefnd félagsins sem gerir tillögur um stjórnarmenn, og hafa sjö þeirra setið áður.

Stjórnarlaun 8,4-17 milljónir á ári

Úr stjórn fer að þessu sinni Jussi Pesonen, framkvæmdastjóri skógarhöggs- og pappírssamsteypunnar UPM, sem setið hefur í stjórn Sampo um tveggja ára skeið. Þá er lagt til að stjórnarformaður verði Georg Ehrnrooth, sem um langt árabil stýrði iðnaðarsamsteypunni Metra, síðar Wärtsilä NSD, og situr m.a. í stjórn Nokia-farsímarisans.

Einnig er lagt til að greiðslur til stjórnarformanns Sampo nemi 160 þúsund evrum á ári, jafngildi tæplega 16,9 milljónum króna, til varaformanns 100 þúsund evrum á ári, jafngildi 10,5 milljónum króna, og fyrir aðra stjórnarmenn 80 þúsund evrur á hvern þeirra, jafngildi rúmum 8,4 milljónum króna. Samkvæmt tillögunni verður 30% af launum stjórnarmanna greidd í hlutabréfum í Sampo og annað í reiðufé.

Af eldri stjórnarmönnum sitja þessir áfram: Tom Berglund, Anne Brunila, Georg Ehrnrooth, Jukka Pekkarinen, Christoffer Taxell, Matti Vuoria og Björn Wahlroos, forstjóri Sampo.

Þá er lagt til að Lýður fái sæti í stjórn og einnig Eira Palin-Lehtinen, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Norda-bankanum, sem Sampo á um 10% hlut í um þessar mundir. Sampo hyggst fjárfesta í áfram í Nordea og hefur í fjölmiðlum ytra verið orðað við hugsanlega yfirtöku á bankanum. Þess má geta að Eira Palin-Lehtinen situr einnig í stjórn finnska fjarskiptafélagsins Elisa, sem Novator, félag Björgólfs Thors Björgólfssonar, fékk nýlega tvo stjórnarmenn í eftir mikið stímabrak.

Hagnaður í fyrra 321 milljarður króna

Hagnaður Sampo í fyrra nam rúmlega 3 milljörðum evra, eða sem nemur 321 milljarði íslenskra króna. Þar af var hagnaður í fjórða ársfjórðungi jafnvirði 11,9 milljörðum króna og dróst saman um 53% á milli ára. Þorra hagnaðar félagsins í fyrra má rekja til gífurlegs söluhagnaðar af Sampo Bank, sem féll til í ársbyrjun 2007.

Stjórn Sampo leggur við aðalfund að greiddur verði arður sem nemur 1,2 evrum á hlut. Miðað við hlutabréfaeign Exista og gengi evrunnar nú fengi félagið um 14,6 milljarða króna í arð, en eignarhluturinn er færður með hlutdeildaraðferð og kemur arðgreiðslan til lækkunar á bókfærðu virði hlutarins.