Framtíð Existu veltur á því að okkur takist að ná viðunandi skuldaskilum við gömlu bankana við uppgjör eigna og skulda félagsins. Það er lykilatriði,“ sagði Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að þótt semja þurfi við erlenda lánardrottna sé algjört grunnatriði að byrja á íslensku bönkunum. „Við höfum hundruð milljarða undir, bæði í kröfum og skuldum, þ.e. kröfur sem við eigum á bankana og einnig skuldir við þá,“ segir Lýður en mikil óvissa hefur skapast um þær kröfur.

„Fundurinn snýst sem sagt í fyrsta lagi um að fá að hitta hluthafa og í öðru lagi um að fá þessi verkfæri í verkfærakistuna okkar sem er hlutafjáraukning og að geta breytt skuldum í hlutafé. Hann snýst einnig um að hluthöfum sé ljóst að ennþá stórfelldari eignasala þurfi hugsanlega að eiga sér stað og að það sé gert með stuðningi þeirra,“ segir Lýður og ítrekar mikilvægi stuðnings hluthafa þegar komi að því að eiga við viðsemjendur.

Hann segir enn fremur að baráttan nú snúist um að standa vörð um það sem eftir standi af Existu. Það eru þó eingöngu innlendar eignir, segir hann og nefnir þá helst Símann, VÍS, Lýsingu og náttúrlega Existu. Eins og fram kom á fundinum telur Lýður að flutningur höfuðstöðva Kaupþings úr landi hefði verið mjög til bóta.

„Ég held að það hefði skipt miklu máli ef Kaupþing hefði ekki verið íslenskur banki á þeim tíma þegar aðrir bankar féllu og eignir þeirra voru frystar,“ segir Lýður og játar því aðspurður að slíkt hafi verið í bígerð. „Það var á umræðustigi og hafði verið það undanfarna mánuði.“ Spurður út í framtíðina, komist Exista í gegnum þetta brimrót, segist hann telja framtíð félagsins erfiða en bjarta. „Við eigum frábær félög en ég held að aðstæður verði almennt erfiðar fyrir allan innlendan atvinnurekstur á komandi ári, ef ekki árum. Ég held þó að góð fyrirtæki muni standa það af sér og við munum rísa úr öskustónni á ný.“

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .