Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu, vísar markaðssögusögnum um félagið á bug og segir stöðu félagsins sterka. Í kynningu á ársuppgjöri Existu í morgun sagði hann að lausafjárstaða félagsins væri afar sterk, en félagið þarf ekki að sækja fé á markaði næstu 81 viku, eða langt fram á árið 2009.

Þá segir Lýður að eiginfjárstaða félagsins sé mun betri en sögusagnir herma. Fyrirtækið beitir svokallaðri hlutdeildaraðferð þegar eignir þess í Kaupþingi og finnska félaginu Sampo eru metnar í reikningum félagsins, en væru þær metnar á markaðsvirði væru eignir Existu um 992 milljónum evra lægri en í ársuppgjörinu. „Ef við gerum ráð fyrir þessu og miðum við markaðsverð er eiginfjárhlutfall félagsins í lok janúar 22%, en þar sem eiginfjárhlutfall í vátryggingar- og fjármögnunarstarfsemi okkar er í kringum 8-10% er þetta hlutfall 25%,“ sagði Lýður á fundinum.

Þá þvertók hann fyrir að Exista myndi neyðast til að selja stærstu eignir sínar, eins og t.a.m. í Sampo, Storebrand, Kaupþingi eða Bakkavör. „Með vísan til þess sem fyrr segir er það einfaldlega rangt. Við erum langtímafjárfestir í þessum félögum og ætlum ekki að selja hlut okkar í þeim,“ sagði Lýður Guðmundsson á afkomufundinum í morgun.

Hlutabréf í Existu hafa hækkað í verði um hálft prósent í morgun.