Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu, segir það valda vonbrigðum að engar ákvarðanir virðist hafa verið teknar, hvorki af skilanefnd Kaupþings né íslenskum stjórnvöldum, um að höfða mál gegn breskum stjórnvöldum vegna þeirrar ákvörðunar að ráðast inn í Kaupþing Singer&Friedlander í London og neyða bankann í greiðslustöðvun.

Þetta kom fram í ræðu hans á aðalfundi félagsins í morgun.

Lýður sagði að fljótlega í kjölfar þessarar árásar breskra stjórnvalda hefði Exista kannað grundvöll málaferla í Bretlandi. „Í janúar á þessu ári var orðið ljóst að skilanefnd Kaupþings hefði afráðið að höfða mál gegn breskum stjórnvöldum og var þá ákvörðun tekin um að Exista myndi bíða niðurstöðu þess málareksturs áður en lengra yrði haldið," sagði hann.

„Jafnframt  lét Exista skilanefnd Kaupþings í té ítarleg gögn og annan afrakstur undirbúningsvinnu sem unnin hafði verið af breskum lögmönnum félagsins. Exista greiddi tugi milljóna króna fyrir þessa vinnu og því veldur það vonbrigðum að engar ákvarðanir virðast hafa verið teknar, hvorki af bankanum né íslenskum stjórnvöldum, um málaferli til að fá úr því skorið hvort hinn breski banki Kaupþings hafi verið beittur órétti sem ef til vill bakar breskum stjórnvöldum skaðabótaábyrgð."

Hann bætti því við að það vekti ekki síst furðu vegna yfirlýsinga stjórnvalda um að sækja skaðabætur á hendur þeim sem bakað hefðu þjóðinni tjón í aðdraganda bankahrunsins.

Íslensk stjórnvöld leiti svara

Lýður sagði að margoft hefði komið fram að Kaupþing Singer&Friedlander hefði verið fjárhagslega mun sterkari en margir þeirra banka sem bresk stjórnvöld hefðu hjálpað. Hann hefði því með sömu fyrirgreiðslu staðið við skuldbindingar sínar að fullu eins og önnur erlend starfsemi Kaupþings.

Hann sagði enn fremur að þegar bresk stjórnvöld hefðu ráðist inn í bankann í London hefði grundvellinum verið kippt undan starfsemi  móðurfélagsins á Íslandi „og fall bankans ekki umflúið."

Lýður sagði að í rannsókn íslenskra stjórnvalda á aðdraganda og ástæðum bankahrunsins yrði vafalítið reynt að leita svara við því hvers vegna bresk stjórnvöld hefðu afráðið að yfirtaka bankann „með jafn gerræðislegum hætti og raun bar vitni."