Flow Education er sprotafyrirtæki sem er um þessar mundir að þróa nýja menntatæknivöru (e. EdTech). Teymið vinnur að heildstæðu námskerfi sem samanstendur af þremur vörum sem mynda eina. Í fyrsta lagi er Flow Education með vinnubók, sem ætluð er til þess að kenna nýjar aðferðir ásamt því að æfa nemendur að ná skriflegum árangri.

Annars vegar hannar fyrirtækið námsleik sem samtvinnast inn í vinnubókina, en hann er ætlaður til þess að gera æfinguna skemmtilega. Í þriðja lagi spýtir forritið efninu út til kennara eða foreldra sem fá þannig upplýsingar um árangur barnanna. Lausnin fer í beta-prófanir í haust, en liðið tekur þátt í Startup Reykjavík í sumar.

Íris E. Gísladóttir einn af fimm liðsmönnum í teyminu, segir að leikurinn sjálfur sé einstaklingsmiðaður. „Nemandinn fær einstaklingsmiðuð dæmi í rauntíma, sem eru hvorki of erfið né létt, með þeim hætti helst náttúrulegur áhugi barnanna áfram sem eykur líkur þeirra á árangri Við greinum svo börnin. Þetta er sífellt símat sem gefur miklu haldbærari mynd á getu barnanna og námsárangur þeirra,“ segir hún. „Við erum að fínpússa hvernig vörurnar tengjast saman. Við höfum verið að prufa leikinn og hann sýndi að börn voru að reikna fimm til tólffalt hraðar en þau gerðu áður og voru líklegri til að svara rétt á blaði. Þau gátu gert það sem þau voru að gera í bókinni betur eftir að þau voru búin að spila leikinn,“ bætir hún við.

Stærðfræði læsi 21. aldarinnar

Teymið samanstendur af Mathieu Gretti Skúlasyni, forstjóra og forritara, Jónasi Inga Valdimarssyni, forritara og leikjahönnuðar, Nelsy Adriana Pérez Jimérez, sem sér um hönnun, Guðbjörgu Aðalsteinsdóttur, kennara og Írisi Evu Gísladóttur, sem hefur þekkingu í sölu- og rekstrarmálum.

Íris segir að hugmyndin hafi kviknað þegar Mathieu Grettir stundaði rannsóknir á því hvernig styrkingahættir í tölvuleikjum virka og af hverju okkur finnst gaman að spila þá. „Okkur langar að kenna stærðfræði því að við teljum að stærðfræði sé læsi 21. aldarinnar. Hún er grunnurinn að þeim störfum sem hrannast upp í dag. Það er svo ótrúlega mikilvægt að við séum að byggja upp öflugan stærðfræðigrunn sem hefur ekki endilega verið raunin á síðustu árum. Við erum að reyna að vekja áhuga barnanna. Leikurinn er að fullu leyti sambærilegur við það afþreyingarefni sem er boðið upp á í dag,“ segir Íris.

Ræða við skóla

Mikill áhugi er fyrir vörunni að sögn Írisar. Hún tekur fram að þau leggi af stað með fulltilbúna vöru í byrjun næsta árs. Varan verður þá í boði fyrir einstaklinga og svo ætlar teymið að byrja að ræða við skóla í haust til að komast þar inn á næsta skólaári. „Við höfum verið að ræða við kennara og þeir sem við höfum rætt við hafa í raun og veru sagt við okkur: Er þetta tilbúið, má ég fá þetta núna? Kennararnir sitja í súpunni, þeir eru að drukkna í vinnu og hafa lítið af nútímalegum tólum til að sinna vinnunni sinni. Námskerfið okkar á að auðvelda vinnu kennara umtalsvert, engin yfirferð námsbókabóka í óborgaðri yfirvinnu á kvöldin,“ segir Íris.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .