Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta tölublaði að þúsundir bifreiða aka nú um götur Íslands með öryggispúða frá japanska framleiðandanum Takata sem hafa kostað átta manns lífið og valdið hundruðum slysa.

34 milljónir bíla hafa verið innkallaðar um allan heim vegna loftpúðanna, en dauðsföllin hafa öll átt sér stað í bifreiðum frá Honda. Aðrir japanskir framleiðendur, þá helst Toyota og Nissan, hafa þó einnig innkallað fjölda bíla. Í þessu myndbandi frá CNN má sjá hvernig púðarnir springa út og geta valdið miklum skaða.

Viðskiptablaðið ræddi við umboðsaðila þessara bifreiða á Íslandi og kom þá í ljós að þrátt fyrir að innkallanir hafi verið tilkynntar á yfir 6.000 bílum, þá hafa þær enn ekki verið framkvæmdar vegna þess að varahluti vantar. Á meðan ekur fólk um göturnar í þessum bílum.

Mjög alvarlegt mál

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, lítur loftpúðamálið alvarlegum augum. Hann hvetur neytendur til að hafa samband við sín bílaumboð ef þeir hafa áhyggjur af því að bílar þeirra gætu innihaldið gallaða loftpúða frá Takata.

„Það hefur sýnt sig að það hafa fylgt þessu banaslys þannig að þetta er mjög alvarlegt. Þetta er auðvitað martröð fyrir alla sem að koma,“ segir Runólfur. Hann gefur lítið fyrir það að púðarnir séu minna hættulegir á Íslandi en annars staðar.

„Ég myndi fara varlega í að búa til eitthvert annað umhverfi hér en annars staðar, veðráttan hér er nú þannig að við getum illilega treyst henni. Það borgar sig ekki að alhæfa neitt um að hér sé minni hætta út af minni raka, það verður bara að taka á þessum málum. Þetta er mjög alvarlegt mál.“

Hann minnist atviks fyrir rúmum 20 árum hér á landi þegar kviknaði í bíl frá Chrysler í Ísafjarðardjúpi og hann endaði í ljósum logum. Þá taldi bílaumboðið að um smávægilegan galla væri að ræða og var mikil mildi að farþegar bílsins sluppu ómeiddir.

„Það er ekki hægt að ætla fólki að vera í neinni rússneskri rúllettu, þeim ber skylda að afgreiða þetta snöggt og örugglega,“ segir Runólfur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .