Davíð Snær Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Car Rental, segir að bílaleigan hafi þurft að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins.  „Við sem stöndum í rekstrinum erum að eðlisfari mjög jákvæð og gátum ekki horft fram á fjöldauppsagnir og tímabundna lokun. Við þurftum að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir. Allir starfmenn fyrirtækisins voru teknir úr sínum daglegum störfum og voru fluttir yfir í húsbílaleigu," segir Davíð og bætir við að mikill viðsnúningur hafi orðið í rekstrinum eftir að fyrirtækið færði sig yfir í að leigja út húsbíla.

„Við lokuðum aldrei starfseminni og héldum öllu okkar fólki í vinnu. Við settum starfmenn á hlutabótaleiðina meðan við vorum að átta okkur á stöðunni og hvaða aðgerða við þyrftum að grípa til. Hlutabótaleiðin var gott úrræði sem hefur nýst mörgum fyritækjum mjög vel."

Hann segir jafnframt að þó aðgerðir stjórnvalda hafi í heildina á litið reynst fyrirtækjum vel þá hafi biðin eftir brúarlánum verið löng. „Það sem mér hefur þótt vanta upp á hjá stjórnvöldum er að þessi stuðningslán eða brúarlán sem tilkynnt voru í mars hafa ekki enn farið í gegn. Maður áttar sig ekki á því hvað er að tefja og hvenær fólk getur fengið þessa fyrirgreiðslu eins og lofað var."

Hann bætir við að honum hafi fundist þríeykið og Íslensk erfðagreining staðið sig einstaklega vel í sóttvörnum. „Þegar erlendir ferðamenn eru að ákveða sig hvaða lands þeir hyggist ferðast til þá horfa þeir á smithættuna í hverju landi fyrir sig og eins og staðan er núna er Ísland mjög álitlegur kostur," segir Davíð og bætir við að tölvupóstar og bókanir frá erlendum ferðamönnum séu farnar að taka aftur við sér. „Við höfum fundið fyrir einhverjum áhuga frá erlendum ferðamönnum en náttúrulega ekkert í neinum samanburði eins og í venjulegu árferði."

Húsbílarnir breyttu öllu

Davíð segir að það hafi orðið algjör viðsnúningur í resktrinum þegar fyrirtækið tók þá ákvörðun að hefja að leigja húsbíla til íslenskra ferðamanna. „Við erum hrærð yfir þessum mikla áhuga. Viðtökurnar sem við höfum fengið hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Í dag erum við alveg að verða fullbókuð út júlí og við höfum þurft að hafna fólki og senda til annarra fyrirtækja. Ástæðan fyrir þessum vinsældum er tel ég sú að við erum að bjóða upp á verð sem þekkjast ekki á markaðnum og ótakmarkaðan kílómetrafjölda," segir Davíð og bætir við að meirihluti húsbílanna séu skuldlausir og það hafi gert þeim kleyft að bjóða upp á svo hagstæð verð. „Við erum með rúmlega 75 húsbíla og 150 campera. Gerðirnar af húsbílunum sem við erum að bjóða upp á eru þrjár, þriggja, fjögurra og sex manna. Menn hafa verið að benda mér á að þetta sé stærsta húsbílaleiga landsins. Hingað til hafa svona 4-5 fyrirtæki verið að keppa um sömu brauðmolana á þessum markaði en það sem við höfum verið að gera öðruvísi en keppinautar okkar er að við höfum verið að bjóða upp á hagstæðari verð og ótakmarkaðan kílómetrafjölda."

Hann segir jafnframt að fyrirtækið hafi þurft að ráðast í einhverjar breytingar þegar það hóf leigu á húsbílunum. „Við þurftum að huga meira að markaðssetningu innanlands og kynna fyrirtækið betur fyrir Íslendingum en í gegnum tíðina hefur meirihluti af okkar viðskiptavinum verið erlendir ferðamenn. Við héldum nokkrar húsbílasýningar og auglýstum. En eins og áður sagði fóru viðtökurnar fram úr okkar björtustu vonum."

Bjartsýnn á framhaldið

Davíð segir að þó svo að fyrirtækið hafi farið í gegnum erfiða tíma undanfarna mánuði sé hann bjartsýnn á framhaldið. „Eftir að tilkynnt var um lokun landamæra erlendis þá sáum við fram á að það yrðu engir erlendir ferðamenn sem myndu koma hingað til lands næstu mánuði og jafnvel út árið. Við teiknuðum upp þrjár sviðsmyndir en staðan varð ennþá verri heldur en svartasta sviðsmyndin gerði ráð fyrir." Davíð kveðst þó vera brattur og er viss um að reksturinn muni taka við sér á næstu mánuðum.

Hann segir að hann sjái mikil tækifæri í íslenskri ferðaþjónustu til framtíðar og það sé mikilvægt að stjórnendur hjá ferðaþjónustufyrirtækjum bogni ekki þó á móti blási. „Þetta tímabil hefur nýst okkur vel í endurskipulagningu félagsins og almenna hagræðingu. Í þessu erfiða árferði þá verður maður sem stjórnandi í ferðaþjónustunni að muna að hafa trú á þessum ferðamannabransa sem hefur verið í svo mikilli uppbyggingu undanfarin ár. Ísland er svo ótrúlega fallegt land og sem ferðamannastaður býður landið upp á svo ótal mörg tækifæri. Það sem skilar árangri er mikil vinna og sérstaklega vinnan eftir klukkan fimm á daginn. Ég er allavega mjög bjartsýnn á að við náum að sigla í gegnum þennan ólgusjó og komum sterkari til baka."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .