*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 21. janúar 2018 18:02

Má ekki ganga of nærri greininni

Forstjóri Samherja telur að aukin innheimta opinberra gjalda muni reynast mörgu fyrirtækinu erfið.

Ritstjórn
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Haraldur Guðjónsson

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, telur að aukin innheimta opinberra gjalda muni reynast mörgu fyrirtækinu erfið. Þar sé hvorki tekið tillit til afkomu líðandi stundar né viðurkennd sú mikla fjárfestingarþörf sem felst í því að þurfa að halda í við auknar kröfur viðskiptavina. Því sé ekki endilega best að horfa eingöngu til EBITDA sjávarútvegsins sem gjaldstofns, þ.e.a.s. rekstrarniðurstöðu án tillits til afskrifta, vaxtakostnaðar og tekjuskatta.

„Auðvitað þurfum við líka að fjalla um hana en ef sjávarútvegurinn á að standa sig þá þarf að fara í miklar fjárfestingar. Það er að segja ef markmiðið er að ná hámarksverði fyrir þær fiskafurðir sem við veiðum. Við verðum að horfa á heildarmyndina þegar við ræðum um skattlagningu á greinina. Ég tel að við þurfum að horfa fram á veginn og ræða það hvernig við náum að hámarka verðmætin til lengri tíma,“ segir Þorsteinn Már.

Jafnframt segir Þorsteinn Már að gjaldtaka í íslenskum sjávarútvegi sé ekki í samræmi við það sem gengur og gerist annars staðar í Evrópu. „Við erum mjög stolt af því að sjávarútvegur á Íslandi er svo staddur, ólíkt öðrum þjóðum, að hann getur skilað til þjóðfélagsins háum fjárhæðum á hverju ári. Það breytir því þó ekki að við verðum að gæta þess að ganga ekki of nærri greininni þannig að við töpum enn frekar því forskoti sem við höfum haft á aðrar þjóðir sem sótt hafa í sig veðrið. Þær hafa haft til þess stuðning og skilning þarlendra stjórnvalda sem vantað hefur hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.