Ólafur hefur alþjóðleg réttindi sem skipstjórnarmaður sem veita honum rétt til að stýra skipum af öllu tagi, allt frá smæstu fiskibátum til stærstu skemmtiferðaskipa, ef því er að skipta. Þegar átti að skrá hann sem stýrimann á dráttarbátinn Gretti sterka í síðustu viku fékk hann synjun þar sem Samgöngustofa gerir þá kröfu að hann hafi gild réttindi útgefin á Íslandi til þess að stýra skipi sem fellur innan flokksins „fiskiskip og önnur skip“.

Grettir sterki, sem gerður er út af einkahlutafélaginu Togskip, fór í síðustu viku frá Reykjavík til Vopnafjarðar til að draga Víking AK, uppsjávarskip Brims hf., til Akureyrar, eins og sagt var frá í Fiskifréttum fyrir réttri viku. Ólafur átti ekki heimangegnt til Vopnafjarðar en flaug til Akureyrar og átti að vera stýrimaður á Gretti sterka á siglingunni til Reykjavíkur. Komið var við á Grundafirði í leiðinni og fiskibáturinn Hannes Andrésson SH tekinn í tog en Togskip ehf. hefur keypt bátinn og ætlar að nýta hann í varahluti.

„Ég hef verið sjómaður og skipstjórnarmaður allan minn starfsferil sem spannar 45 ár. Ég er með ótakmörkuð, alþjóðleg skipstjórnarréttindi sem gilda til ársins 2022. Gamla fiskimannaskírteinið mitt er útrunnið fyrir lifandis löngu enda hef ég ekkert þurft að nota það því ég var svo lengi skipstjóri í Noregi á kaupskipum. Þegar dráttarbátar fara út af hafnarsvæði þarf auk skipstjóra að vera skráður stýrimaður og ég var beðinn um að taka það að mér. Þegar við vorum að undirbúa heimsiglinguna á Akureyri var rafrænni skráningu minni sem stýrimanns hafnað á vefsíðu Samgöngustofu. Daginn eftir hafði ég samband við stofnunina og fékk þá að vita að fiskimannaskírteinið væri útrunnið. Niðurstaðan var sú að þótt ekkert væri því til fyrirstöðu að ég fengi skráningu sem skipstjóri á Queen Elizabeth þá fékk ég ekki skráningu sem stýrimaður á íslenskan dráttarbát á leið frá Akureyri til Reykjavíkur,“ segir Ólafur og hlær.

Heilbrigðisvottorð og rithandarsýni

Til þess að fá undanþágu hjá Samgöngustofu þurfti Ólafur að panta tíma hjá lækni og fá hjá honum heilbrigðisvottorð. Hann varð síðan að upplýsa Samgöngustofu hvenær læknisheimsóknin yrði. Einnig átti hann að senda stofnuninni rithandarsýnishorn og mynd en slapp við það því hann hafði nýlega fengið ökuritaskírteini og stofnunin átti því nýlega mynd og rithandarsýni. Hann millifærði til Samgöngustofu 8.900 krónur í greiðslu fyrir endurnýjun á skírteininu. Svar barst um hæl að greiða þyrfti aðrar 8.900 krónur fyrir flýtimeðferð.

„Stóri brandarinn er sá að ég geti fengið skráningu á hvaða skip sem er sem skipstjóri, og skiptir stærð þess engu máli, út á mitt alþjóðlega skírteini sem Samgöngustofa gefur sjálf út. En ég fæ ekki skráningu sem stýrimaður á dráttarbát því fiskimannaskírteinið er útrunnið.“

Ólafur fékk að lokum undanþágu sem gildir til 20. október og fær svo í framhaldinu endurnýjun á fiskimannaskírteininu ef ekkert óvænt kemur upp. Ólafur segist vita mörg dæmi þess að menn með alþjóðleg skipstjórnarréttindi, sem hafi unnið lengi erlendis, hafi lent í þessu sama.