Kaupþing og fjárfestingarbankinn Merril Lynch hafa hug á að kaupa orkufyrirtækið Enex, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins, og munu viðræður vera komnar nokkuð áleiðis.

Ólafur Jóhann Ólafsson, nýkjörinn stjórnarformaður Geysir Green Energy (GGE), sagði á dögunum að til að leysa þann hnút sem skapast hefði um eignarhald og stefnu Enex þyrfti annað hvort GGE eða REI (Reykjavík Energy Invest) að kaupa Enex, en svo virðist sem þriðja lausnin sé í spilunum.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri GGE, segir vissulega rétt að fjárfestar hafi haft samband og lýst yfir áhuga á að kaupa félagið. „Ég vil hins vegar ekkert tjá mig um það hvaða aðila er um að ræða. Þessi hugmynd kemur vissulega til greina og það má vel vera að við seljum."

„Ég veit hins vegar ekki til þess að viðræðurnar séu langt komnar. En ég vona að þetta sé rétt,“ segir Ásgeir.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .