Hjörleifur Kvaran, forstjóri REI, segir að félagið muni skoða málin komi ásættanlegt tilboð frá GGE í hlut REI í Enex.

Eins og fjallað hefur verið um undanfarna daga hefur REI ekki hugnast að gefa fjórðungshlut sinn í Enex eftir, en GGE sem á 73% hlut í Enex hefur ásælst hluta REI.

Í Viðskiptablaðinu í gær er haft eftir Ólafi Jóhanni Ólafssyni, stjórnarformanni GGE, að annað hvort komi GGE til með að eiga allt hlutafé Enex eða REI kemur til með að eiga það.

„Þessi mál hafa ekki verið rædd hjá okkur síðan hagir GGE breyttust. En það hefur engin breyting orðið á því að menn verða að finna einhverja lausn á málinu,” segir Hjörleifur.

„Það má vera að GGE kaupi okkar hluta, en ég geri ekki ráð fyrir að við kaupum þeirra hluta í Enex. Sú leið sem GGE hefur lagt til að sameina GGE og Enex hugnast stjórn REI ekki enda yrði eignarhluturinn í sameinaða félaginu lítill og áhrifalaus. Það má vera að GGE sem nú hefur fengið nýtt hlutafé geri okkur tilboð í hluta REI og þá verður afstaða tekin til þess en ekkert slíkt tilboð hefur borist með formlegum hætti.“