Macland flytur á morgun, föstudaginn 3. október, í nýtt húsnæði að Laugavegi 23. Nýja húsnæðið er tvöfalt stærra en þar sem verslunin og verkstæði voru áður til húsa, að Laugavegi 17. Þá verður ný vefsíða sett í loftið í tilefni flutninganna.

Fram kemur í fréttatilkynningu að breytingar sem viðskiptavinir Macland megi vænta vegna flutningana séu nýtt skipulag í verslunarrýminu og verði því skipt í tvennt, annars vegar í verslunarrými og hins vegar í þjónustudeild. Þetta sé gert í þeim tilgangi að sinna þörfum viðskiptavina Maclands betur, en hingað til hafi öll móttaka og afgreiðsla farið fram í verslunarrýminu.

Macland verður 4 ára þann 21. desember og mun þann dag hefja sitt fimmta rekstrarár. „Okkur óraði ekki fyrir þessu góða gengi þegar við fórum af stað í hriplekum skúr á Klapparstígnum og okkur grunaði alls ekki að rúmu ári eftir að við fluttum á Laugaveg 17 að við mundum þurfa að stækka enn frekar við okkur svona fljótt. Við erum fyrst og fremst bara gríðarlega þakklát fyrir móttökurnar sem Macland hefur fengið frá upphafi og hlökkum til að takast á við þá áskorun að fara í mun stærra húsnæði og geta þá vonandi þjónustað viðskiptavini okkar enn betur,” segir Hörður Ágústsson, eigandi Macland.

Í tilefni flutningana að Laugavegi 23 mun Macland bjóða upp á opnunartilboð á ýmsum vörum.