Ástralski bankinn Macquarie Bank og Kaupþing banki eru taldir líklegir kaupendur af breska verðbréfafyrirtækinu Seymour Pierce, samkvæmt fréttum í breskum fjölmiðlum.

The Independent greindi frá því um helgina að Keith Harris, stjórnarformaður Seymour Pierce, hefði áhuga að að selja fyrirtækið. Ekki er til nákvæmt verðmat á fyrirtækinu, en talið er að hugsanlegur verðmiði sé á bilinu 50-150 milljónir punda.

Heimildarmenn Viðkiptablaðsins telja þó ólíklegt að Kaupþing banki hafi áhuga á að kaupa Seymour Pierce, þrátt fyrir að hafa gefið til kynna í fjölmiðlum að bankinn hafi áhuga á að kaupa breskt verðbréfafyrirtæki.

Kaupþing banki hefur ákveðið að byggja upp verðbréfaeiningu frá grunni og hefur ráðið Tim Cockcroft, fyrrverandi forstjóra KBC Peel Hunt, til að setja upp og stýra einingunni.

Harris, sem starfaði áður hjá alþjóðlega fjárfestingabankanum HSBC og keypti Seymour Pierce fyrir þremur árum síðan, hefur einnig neitað því að hann vilji selja fyrirtækið.

Kaupþing banki, líkt og Macquarie Bank, hefur verið orðaður við fjöldamörg verðbréfafyrirtæki á síðustu tveimur árum. Landsbanki Íslands keypti þrjú verðbréfafyrirtæki í fyrra ? breska fyrirtækið Teather & Greenwood, franska fyrirtækið Kepler Equities og írska fyrirtækið Merrion Capital.