Ástralski fjárfestingabankinn Macquarie Bank íhugar nú að bjóða í breska fjármálafyrirtækið Collins Stewart Tullet PLC, samkvæmt frétt breska viðskiptablaðsins The Business.

Kaupþing banki var bendlaður við Collins Stewart í breskum fjölmiðlum en samkvæmt heimildamönnum Viðskiptablaðsins hefur bankinn ekki áhuga á því að kaupa félagið. Haft hefur verið eftir stjórnendum Kaupþings að bankinn sé á höttunum eftir verðbréfafyrirtæki. Kaupþing banki hefur einnig verið nefndur sem hugsanlegur kaupandi að bresku verðbréfafyrirtækjunum Shore Capital, Numis Securities og Evolution Group.

Heimildamenn Viðskiptablaðins segja að Kauþing muni ekki gera tilraun til þess að kaupa Shore, Numis eða Evolution en búast þó við að bankinn sé að skoða nokkur svipuð félög.

Ásamt Macquarie Bank, hafa fjárfestingasjóðirnir Kohlberg Kravis Roberts (KKR) og Blackstone Group áhuga á Collins Stewart. Talið er að KKR hafi lagt til að kaupa Collins Stewart á 1,45 milljarða punda (156 milljarða íslenskra króna), eða sem samsvarar sjö pundum á hvern hlut.

Nokkur eftirspurn er eftir smærri breskum verðbréfafyrirtækjum vegna mikils uppgangs á AIM-hlutabréfamarkaðnum í London. Á AIM-markaðinn eru skráð meðalstór fyrirtæki. Landsbanki Íslands hefur keypt tvö verðbréfafyrirtæki á þessu ári ? breska félagið Teather & Greenwood og evrópska miðlunarhúsið Kepler Equities.