*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 4. desember 2018 16:04

Macron fellur frá bensíngjaldshækkun

Frönsk yfirvöld hyggjast falla frá fyrirhugðum hækkunum bensíngjalds eftir afar hörð mótmæli „gulu vestanna“.

Ritstjórn
Mótmælandi veifar franska fánanum fyrir framan Sigurbogann, þar sem mótmælendur og óeirðarlögregla tókust á.
epa

Búist er við að frönsk yfirvöld tilkynni síðar í dag um að horfið verði frá fyrirhuguðum hækkunum bensíngjalds, eftir hörð mótmæli sem leidd hafa verið af hreyfingu sem kallar sig „gulu vestin.“

Haft er eftir heimildum AFP fréttaveitunnar innan ríkisstjórnarinnar, í frétt Financial Times, að Édouard Philippe forsætisráðherra muni tilkynna um frestun hækkunarinnar.

263 slösuðust í mótmælunum á laugardag – sem yfir 100 þúsund manns tóku þátt í, þriðju helgina í röð – og 412 voru handteknir í París vegna þeirra. Gríðarlegt tjón varð vegna mótmælanna, en meðal annars var brotist inn í búðir, vegtálmar settir upp, tugir bíla brenndir, auk þess sem Sigurboginn (Arc de Triomphe) var þakinn veggjakroti.

Mótmælin, sem hófust sem undirskriftasöfnun gegn bensíngjaldshækkuninni, eru nú sögð snúast um staðnandi laun, fallandi kaupmátt, og andstöðu við Macron. Bensíngjaldshækkunin, sem hefði hlutfallslega meiri áhrif á lágtekjuhópa og íbúa í dreifbýli, er sögð ýta undir þá ímynd sumra að Macron vinni aðeins fyrir hina ríku.

Stikkorð: Macron bensíngjald