Emmanuel Macron, forseti Frakklands, viðurkenndi í viðtali við breska ríkissjónvarpið að ef franskir kjósendur fengju tækifæri til þess væri líklegt að þeir hefðu farið sömu leið og Bretar og samþykkt að yfirgefa Evrópusambandið.

Sagði hann þetta aðspurður í samtali við Andrew Marr á BBC en þar taldi hann að þeir sem hefðu tapað á alþjóðavæðingunni hefðu stutt úrsögn úr ESB, þrátt fyrir að helstu talsmenn úrsagnar hafi löngum stutt meiri en ekki minni heimsviðskipti.

Spurði Andrew Marr þá hvort niðurstaðan hefði verið sú sama ef franskir kjósendur fengju að velja. „Já, líklega, líklega. Já. Í svipuðu samhengi. En samhengið er mjög ólíkt í Frakklandi.“