Emmanuel Macron, forsetaframbjóðandi En Marche!, miðjuflokksins í Frakklandi, sem hann stofnaði stuttu fyrir kosningar vill innleiða efnahagskerfi innblásið af Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í frétt Financial Times .

Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að blanda saman fjárhagslegu aðhaldi og ríkisútgjöldum. Macron sagði í viðtali við Les Echos dagblaðið að hann vildi spara 60 milljarða evra á næstu fimm árum og segja upp um 120 þúsund opinberum starfsmönnum. Á sama tíma vill hann þó auka útgjöld ríkisins um 50 milljarða evra.

„Við verðum að finna upp á nýju hagvaxtarlíkani,“ segir Macron meðal annars í viðtalinu. Hann leggur jafnframt áherslu á það að nýja kerfið verði að taka tillit til þess að auka sjálfbærni og að kerfið stuðli að félagslegum hreyfanleika (e. social mobility).