Nýkjörinn forseti Frakklands, Emmanual Macron, hefur þegar hafist handa við eitt af sínum helstu áherslumálum í kosningabaráttu sinni, en það er að einfalda 3.000 blaðsíðna regluverk landsins um verkalýðsréttindi starfsmanna. Á tíunda degi sínum í starfi hefur Macron og ráðherra verkalýðsmála, Muriel Penicaud, nú byrjað að hitta félög atvinnurekenda og verkalýðsfélög í landinu til að reyna að finna flöt á breytingum sem gæti orðið sátt um.

Vill Macron að fyrirtækjum verði gert kleyft að semja beint við eigin starfsmenn, í stað þess að þeir verði að hlýta samningum sem samið er um fyrir allan iðngeirann í einu sem þeir starfa í. Markmiðið er að bæta samkeppnisstöðu landsins með því að gera fyrirtækjunum auðveldara að reka og þar með ráða fólk.

Reynt í tvo áratugi

Macron er þó ekki sá fyrsti sem reynt hefur að hreyfa við þessu þunglamalega kerfi, sem forsetar ríkisins hafa reynt að hemja í tvo áratugi, þar á meðal forveri Macron í starfi, Francois Hollande.

Macron hóf feril sinn í stjórnmálum sem ráðherra efnahagsmála í forsæti Hollande, þar sem hann hjálpaði til við að semja ný lög sem hefðu bæði takmarkað upphæðir í starfslokasamningum sem og gert fyrirtækjum auðveldara fyrir við að reka starfsfólk í niðursveiflum.

Þynnt út og sett með tilskipun

En lögin, sem kennd voru við El Komri, ráðherra Hollande í verkalýðsmálum, voru þynnt út eftir mikil mótmæli frá öflugum verkalýðsfélögunum í landinu sem á endanum leiddi til þess að Macron yfirgaf ríkisstjórnina í ágúst 2016 til þess að stofna eigin stjórnmálaflokk.

Hollande kom lögunum samt sem áður í gegn með tilskipun síðar í mánuðinum, en Jacques Chirac hafði einnig bakkað með lög sem hefðu gert auðveldara að reka ungt starfsfólk árið 2006 eftir mikla mótmælaöldu, að því er Bloomberg greinir frá.

Verkalýðsfélögin munu andæfa

Philippe Martinez, leiðtogi næst stærsta verkalýðsfélags Frakklands, CGT, hefur þó sagt að nýjum lögum Macron verði einnig andæft kröftuglega. Macron hefur sagt að hann hyggist einnig koma lögunum á í krafti tilskipunar til að koma í veg fyrir umræður á þinginu, en að undangengnu samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Christophe Castaner, talsmaður ríkisstjórnarinnar segir að ekki megi búast við sömu andstöðu og við lögin frá Hollande. „Khomri lögin voru sett við lok kjörtímabils hans, og voru þau aldrei hluti af kosningaloforðum hans,“ sagði Castaner. „Emmanual Macron var kosinn út á loforð hans um að losa um verkalýðslöggjöfina í þessu landi.“