Bandaríska verslunarkeðjan Macy‘s hefur bundið enda á samband sitt við viðskiptamógúlinn og forsetaframbjóðandann Donald Trump. Ákvörðun fyrirtækisins tengist ummælum Trump um mexíkóska innflytjendur, sem hann kallaði öllum illum nöfnum.

Macy‘s hefur selt fatnað frá Trump frá árinu 2004 og þá hefur hann einnig leikið í auglýsingum frá versluninni. Nú vill Macy‘s hins vegar ekki tengjast Trump á nokkurn hátt.

„Við höfum ekkert umburðarlyndi gagnvart nokkurs konar fordómum. Allir viðskiptavinir eru velkomnir til okkar og það er hornsteinn okkar menningar að bera virðingu fyrir öllum,“ segir í yfirlýsingu frá Macy‘s.

Í svari sínu sagði Trump að sér þætti mikilvægara að vera trúr sjálfum sér heldur en að selja föt í Macy‘s, sem hann kallaði „smáfyrirtæki“.

Hann sagði meðal annars um mexíkóska innflytjendur: „Þeir koma hingað og nauðga og fremja glæpi. Þetta eru nauðgarar.“

Þessi ummæli virðast skila sér í mögulegum atkvæðum frá lægsta samnefnaranum, en skoðanakannanir í Iowa fylki sýna að hann stendur vel að vígi þar. Í einni könnun var hann í öðru sæti á eftir Jeb Bush.