Bandaríski kaupsýslumaðurinn Bernard Madoff sem dæmdur var sumarið 2009 í 150 ára fangelsi fyrir fjársvik reyndi að svipta sig lífi þegar upp komst um fjársvikin.

Eiginkona hans Ruth segir frá þessu í viðtali við 60 Minutes sem CBS sjónvarpsstöðin sýndi brot úr í kvöld. Viðtalið verður sýnt á sunnudaginn í heild sinni.

Ruth segir að bæði tvö hafi gert tilraun til að svipta sig lífi með að taka inn mikið magn af svefnlyfum. Tilraunin mistókst hins vegar þar sem bæði vöknuðu þau hress deginum eftir.

Ástæðuna sagði hún hafa verið hatursfull símtöl og póstar frá fólki hafa verið henni ofviða. Hún hafi sagt við eiginmann sinn að hún þyldi þetta ekki lengur.