Bjarni R. Brynjólfsson skrifstofustjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði segir kvörtun samtakanna um merkingar á möndlumjólk og öðrum afurðum staðgenglum dýraafurða byggja á ákvæðum laga sem verndi neytendur fyrir blekkingum og villandi viðskiptaháttum.

„Málið snýr að nokkrum vörum,“ segir Bjarni í Fréttablaðinu, en samtökin hafa sent inn kvörtun til Neytendastofu vegna merkinga við vörur sem bentu til að þær væru mjólkurafurðir þó ekki búnar til úr mjólk.

„Til að mynda eins og möndlumjólk, sem er gerð úr möndlum og sannarlega ekki mjólk, sjáðu til, maður mjólkar ekki möndlur. Einnig er um að ræða ólífusmjör sem er ekki smjör heldur smjörlíki og einnig höfum við séð búðing, sem búinn er til úr haframjöli, merktan sem jógúrt.“

Koma mjólkurafurðum ekkert við

Bjarni segir að ekki hafi verið innleiddar í lög hér á landi Evrópureglugerðir sem varða því að heiti á mjólkurafurðum séu notaðar á vörum sem ekki eru gerðar úr mjólk. „Það hefur verið þannig að merkingar á tilteknum erlendum vörum hafa verið hárréttar. Hins vegar hafa merkingar á hillum í verslunum innanlands verið rangar,“ segir Bjarni.

„Því hafa ekki verið sömu vöruheiti á merkingum og á vörunum sjálfum. Á grunni þess bentum við Neytendastofu á það að hér sé um villandi viðskiptahætti að ræða.“

Neytendastofa hefur tekið undir gagnrýnina og sent bréf til verslana í landinu sem hafa í auknum mæli verið að anna eftirspurn eftir vörum fyrir þá sem ekki neyta dýraafurða, og má þar nefna aukið framboð á möndlu-, hafra- og sojamjólk sem dæmi.

„Bónus hefur þegar brugðist mjög vel við og ætlar að leiðrétta hillumerkingar sínar,“ segir Bjarni. „Þeir hjá Bónus eru sammála okkur um að þetta kemur mjólkurafurðum ekkert við.“