Guðmundur Hafsteinsson hefur búið í Kísildalnum og unnið að þróun hugbúnaðar og nýsköpunarfyrirtækja þar síðan árið 2005. Hann telur Kísildalinn vera fyrirmynd góðs nýsköpunarumhverfis en að á Íslandi séu hlutirnir að þróast í rétta átt.

Hvað myndirðu ráðleggja þeim sem eru að byrja í nýsköpunarheiminum?

„Forsendan er sú að þetta sé einstaklingur eða hópur sem er með einhverja hugmynd. Það fyrsta sem ég myndi ráðleggja væri að finna fólk sem það treystir til að gefa sér viðbrögð við hugmyndinni og tala um hana við fullt af fólki. Það á ekki að vera feimið við að ræða hugmyndina, það er mesti misskilningur í heimi að fólk sé að stela hugmyndum. Fólk þarf svo að vera opið fyrir því að þróa hugmyndina, hlusta á ráð, sýna fólki hvernig þetta virkar og leyfa henni að þróast. Einnig að geta spurt sig hvort það sé eitthvað varið í hugmyndina. Það eru stór mistök að fara af stað með hugmyndina og halda sig svo fast við hana að það neitar að breyta henni. Það eru ótal dæmi um að að fólk byrji með einhverja hugmynd sem verður að allt öðru. Flickr, til dæmis, byrjaði sem tölvuleikur. Einnig ráðlegg ég þeim sem eru að byrja að leita uppi fólk sem hefur gert þetta áður og getur veitt þeim ráðgjöf. Það er númer eitt, tvö og þrjú, ekki að halda að maður þurfi að gera þetta einn. Að ráðfæra sig við manneskju með reynslu er besta leiðin til að fækka mistökunum sem maður gerir. Ég ráðlegg öllum að fara út í þetta því á Íslandi er svo lítil áhætta fólgin í því að stofna fyrirtæki. Það er svo gott félagslegt kerfi og fjölskylda til að styðja mann í þessu. Einhverjar breytingar eru nú fram undan í heilbrigðismálum í Bandaríkjunum en þar geta til dæmis margir ekki tekið áhættuna á að fara að vinna fyrir nýsköpunarfyrirtæki því þá verða þeir að sleppa því að vera með heilsutryggingu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .