Þetta byrjaði allt út frá græðandi smyrsli sem ég var vön að útbúa á sumrin eftir aldagamalli fjölskylduuppskrift og gefa vinum og vandamönnum. Ég ákvað að byrja að nota býflugnavax, kókos- og möndluolíu í stað vaselíns; ég vildi fá lífræna vottun á vöruna og selja hana í heilsubúðum. Þetta smyrsl, Græðir, er nú meðal okkar vinsælustu vörutegunda,“ segir Sóley Elíasdóttir um upphafið að húðsnyrtivörufyrirtæki sínu, Sóley Organics, sem hún stofnaði árið 2007.

„Fram að þessu hafði ég starfað sem leikkona en ég sá mig bara ekki eldast í því fagi. Ég hafði því ákveðið að leggja fyrir mig grasalækningar og hafið nám í Skotlandi. En ég gaf það fljótlega upp á bátinn því að fyrirtækið mitt tók yfir og ég var að auki með lítil börn á heimilinu. Þá var ég byrjuð að sjóða smyrslin heima í eldhúsinu mínu og selja þau í Heilsuhúsinu. Samhliða því fór ég að þróa leiðir til að nýta grösin í andlitskrem og hársápu – ég vissi að grösin höfðu einstök áhrif á exem, sem er svo algengt í hársverði. Þannig byrjaði þetta. Ég sótti líka námskeið hjá Námstæknistofnun, sem í dag heitir Impra, og lærði að gera viðskiptaáætlun. Smám saman tóku snyrtivörurnar yfir grasalækningarnar.“

Fyrirtækið telur nú þrjá starfsmenn og eru höfuðstöðvarnar að Bæjarhrauni í Hafnarfirði. Hér eru allar hillur þéttskipaðar kremum, smyrslum og kertum í fallegum, stílhreinum umbúðum. Allar merkingar eru á enskri tungu en hins vegar bera vörurnar íslensk heiti á borð við Lind, Lóa, Mjúk og Kær. Veggina prýða auglýsingaveggspjöld af íslenskum konum geislandi af hreysti og fegurð. Þar má meðal annars sjá Laufeyju, systur Sóleyjar, en hún hefur einnig getið sér gott orð sem leikkona. Á einum veggnum hanga búnt af þurrkuðum jurtum og í rýminu er líka eldavél með stærðarinnar potti og ýmislegt í þeim dúr. Þetta undirstrikar tengslin við íslenska náttúru sem fyrirtækið er byggt á. „Þarna fer vöruþróunin fram,“ segir Sóley og brosir.

Nánar er rætt við Sóleyju í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .