Hann er 64 ára – Bandaríkjamaður af japönsku bergi brotinn – sem hefur unnið trúnaðarstörf fyrir varnariðnaðinn og hefur ástríðu fyrir módellestum.

Hann er að sögn fjölskyldu sinnar mjög gáfaður, skapsterkur, þögull og gífurlega var um einkalíf sitt. Dorian Prentice Satoshi Nakamoto er, samkvæmt nýlegri grein Newsweek, hinn eini sanni Satoshi Nakamoto, maðurinn á bak við Bitcoin. Greinin sem birtist í síðustu viku hlaut mikla athygli og hefur fengið hörð viðbrögð en Dorian sjálfur þverneitar fyrir að vera höfundur stafræna gjaldmiðilsins.

Náði ekki viðtali

Í grein Newsweek, sem byggir á tveggja mánaða rannsókn, segirgreinarhöfundurinn Leah McGrath Goodman að hún hafi fundið hinn „raunverulega“ Sakamoto með því að leita að nafninu í gegnum opinbera gagnagrunna.

Dorian fæddist í Japan árið 1949 sem Satoshi Nakamoto en breytti nafni sínu þegar hann var 23 ára gamall. Fram til þessa höfðu margir grunað að Satoshi Nakamoto væri dulnefni fyrir hinn raunverulega höfund eða jafnvel hóp höfunda, en vísbendingarnar sem liggja fyrir um hver hann er eru mjög takmarkaðar. Leah náði til Dorian Nakamoto í gegnum tölvupóstsamskipti þar sem þau ræddu fyrst og fremst helsta áhugamál hans, módellestir. Samskiptin hættu snarlega þegar Goodman fór að skrifa til hans um Bitcoin. Þeirra eini fundur var síðan fyrir utan heimili Nakamoto, þar sem Goodman reyndi án árangurs að ná viðtali við hann. Það var hins vegar það sem hann sagði fyrir utan heimili sitt sem sannfærði Goodman um að hann væri hinn eini og sanni Satoshi Nakamoto.

„Ég er ekki lengur viðriðinn þetta og get ekki rætt það,“ sagði Prentice þegar hún spurði hann um aðild sína að Bitcoin. „Þessu hefur verið komið til annarra. Þau stjórna þessu núna. Ég hef engin tengsl lengur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .